Aðdragandi að stofnun HSV


Það var um vorið 1965. Ég og kona mín leigðum íbúðina í húsinu Gefjun við Strandveg. Þegar líða tók að sumri setti Knattspyrnufélagið Týr upp skrifstofu í húsinu til undirbúnings þjóðhátíðar. Hermann Einarsson hafði tekið að sér framkvæmdarstjórn þjóðhátíðar. Í heimsókn til sambýlisins skaut Hermann þeirri hugmynd til mín, hvort ég sæi möguleika á að ná saman eldri skátum, þ.e.a.s. 16 ára og eldri sem sinnt gætu fyrstu hjálp við slys, einnig til að aðstoða þjóðhátíðargesti ef þyrfti.
Varð úr að ég ákvað að vinn að þessu og fékk málið góðan hljómgrunn hjá skátum og var ákveðið að koma upp hjálparsveit skáta. Strax kom í ljós að við yrðum ekki fjölmennir þar sem fimm af þeim eldri voru á skátamóti í Svíþjóð.

Hermann ræddi við þáverandi héraðslækni, Örn Bjarnason, um málið og sýndi hann málinu mikinn áhuga þar sem þetta starf gæti minnkað umstang hjá Sjúkrahúsinu og að auki minnka ónæði hjá sjúklingum þar. Þegar færi gafst ræddi ég síðan við Örn sem þá var kominn í samband við læknakandídat sem var tilbúinn að koma og veita liðveislu. Einnig var Örn búinn að ganga svo frá að Sjúkrahúsið lánaði sjúkragögn til starfsins.

Ég hafði samband við ágætan kunningja minn, Hjörleif Hjörleifsson sem starfaði með HSSR. Ræddum við málið og bauðst þar aðstoð, bæði að fá mannskap svo og að fá lánuð tæki þeirra, en HSSR hafði þá þegar mikla reynslu í slíku starfi sem við vorum að fara í.

Sem aðseturstað var notað 50 fermetra tjald Skátafélagsins. Var það reist nokkrum dögum fyrir þjóðhátíð. Síðan var tekið til við að ganga frá innan og utan dyra, setja upp milligerðir, ganga frá raflögn í tjaldinu, reisa fánastöng og mastur fyrir loftnet o.fl. En til að hafa samband við Sjúkrahús höfðum við fengið lánaða Landsímatalstöð.

Loks rann dagurinn upp. Byrjað var snemma að koma upp áhöldum og útbúnaði fyrir, kandidat mættur, allir á þönum við lokaundirbúning og að liðsinna fólki sem var í vandræðum með eitt og annað. Hugurinn var mikill, allir ákveðnir að standa undir merki. Þrír félagar úr HSSR komu svo með Herjólfi um miðjan föstudag, með sinn útbúnað.

Fljótlega kom í ljós að starf okkar var það annasamasta fyrir svona fámennan hóp, lítið varð um hvíldir, en allt gekk þetta áfallalaust.

Þarna kviknaði neistinn sem er orðinn að styrkum loga, áhuga og vilja, Skátafélaginu Faxa og Eyjunum til sóma.

Ekki get ég skilið við þessa upprifjun án þess að minnast horfins félaga HSV Kjartans Eggertssonar sem lést af völdum slyss er hann varð fyrir á æfingu sveitarinnar. Starf Kjartans með HSV hófst þegar á fyrsta starfsári sveitarinnar er hann ásamt öðrum annaðist munavörslu á þjóðhátíð í tengslum við HSV. Ég minnist Kjartans sem áhugasömum HSV félaga og góðum dreng sem ætíð var tilbúinn að hlíða kallinu, "vertu ávallt viðbúinn".

Að lokum vil ég færa þeim fjölmörgu er greitt hafa leið HSV fyrr og síðar bestu þakkir.

Til HSV sendi ég mínar bestu árnaðaróskir á fimmtán ára afmælinu. Megi starf ykkar ávallt vera ykkur, Faxa og Eyjunum til sóma.

            Lifið heil.

                                                                                                Skátakveðja

Jón Ögmundsson