NÝTT FÉLAGATAL—UPPFÆRSLA MIKILVÆG


Nýtt félagatal Slysavarnfélagsins Landsbjargar er stórt í sniðum og mikið hefur verið lagt í að gera það sem best úr garði. Hver félagsmaður hefur aðgang að sínum persónulegu upplýsingum og er ábyrgur fyrir því að upplýsingar um heimilisfang, síma, netfang og fleira séu réttar. Formenn eininga eiga svo að sjá til þess að félagatalið þeirra sé uppfært, að rétt sé skráð í útkallshópa og hverjir eru virkir, óvirkir eða látnir.
Félagatalið er nýtt í ýmsum tilgangi, m.a. til útkallsboðunar, og því mikilvægt að upplýsingar í því séu eins réttar og hægt er á hverjum tíma. Einnig er það notað þegar senda þarf út efni, hvort sem um rafræna póstlistann er að ræða, bréf í sniglapósti eða blaðið okkar Björgun. Rangt skráð heimilisföng eru því að kosta peninga því útsending kostar sitt og afar leiðinlegt að fá til baka blöð sem búið er að láta prenta og greiða háan sendingarkostnað fyrir.
Við minnum því almenna félaga á að fara á innri vefinn og kanna hvort þeir séu ekki rétt skráðir. Þar er einnig hægt að skrá sig á og af sendingum eins og Björgun, Árbók og rafrænum póstlista.