Eyjasýn veitir Björgunarfélaginu viðurkenningu


fyrir framlag til samfélagsmála 2012.
 Júlíus Ingason tilkynnti verðlaunahafa fyrir hönd Eyjasýnar við afhendingu Fréttapíramídans.
Þar kom þetta m.a. fram:
 
Sögu Björgunarfélags Vestmannaeyja má rekja til ársins 1918, en við stofnun félagsins var ráðist í kaup á björgunar- og eftirlitsskipi sem annast átti eftirlit með veiðarfærum og vera með landhelgisgæslu við Ísland. Tveimur árum síðar kom fyrsta varðskip íslensku þjóðarinnar, Þór, til landsins en björgunarbátur félagsins í dag ber sama nafn. Þá heitir nýtt og glæsilegt varðskip Íslendinga, sem kom til landsins í fyrra, einnig sama nafni.
 
Starf Björgunarfélagsins er mjög öflugt. Félagið hefur fjórar bifreiðar til umráða og öflugan björgunarbát, eins og áður var komið inn á. Alls starfa um 70 manns í félaginu og þar eru starfandi nýliðadeild og unglingadeild. Félagið er ávallt í viðbragðsstöðu og ófá útköllin sem farin eru til að negla niður þakplötur og binda niður ýmislegt lauslegt þegar golan fer heldur hratt yfir í Vestmannaeyjum.
 
Helsta tekjulind félagsins er hin árlega flugeldasala þar sem Eyjamenn og fyrirtæki í Eyjum fá tækifæri til að styðja myndarlega við bakið á starfi Björgunarfélags Vestmannaeyja. Og eins og sjá mátti á gamlárskvöld þegar mikið var skotið upp, láta Eyjamenn ekki sitt eftir liggja til að tryggja öflugt starf Björgunarfélagsins enda þrífst svona félag ekki án velvildar bæjarbúa.
 
Hvert samfélag þarf á öflugu björgunarliði að halda og við Eyjamenn búum svo vel að hér er eitt öflugasta björgunarfélag landsins staðsett. Félagið er því vel að því komið að hljóta viðurkenningu Eyjafrétta.
 
Þetta eru hlý orð og þiggur Björgunarfélagið viðurkenninguna með þökkum.