Lög Björgunarfélags Vestmannaeyja

Björgunarfélag Vestmannaeyja varð til við sameiningu Björgunarfélags Vestmannaeyja er stofnað var 4. ágúst 1918 og Hjálparsveitar skáta Vestmannaeyjum er stofnuð var 6. ágúst 1965.

 

Heiti félagsins

1. grein

Félagið heitir Björgunarfélag Vestmannaeyja (B.V.). Heimili þess og varnarþing er í Vestmannaeyjum.

 

2. grein

 • Félagið skal vinna að aðhliða björgunar- og hjálparstörfum til sjós og lands:
 • Að halda uppi þjálfun fyrir félaga sína með námskeiðum og æfingum.
 • Að beita sér fyrir fræðslu og kynningu á sviði öryggis- og björgunarmála og stuðla að auknum slysavörnum.
 • Að afla þess búnaðar sem nauðsynlegur er til starfsins.

 

Einkenni

3. grein

 • Merki félagsins er hringur og innan í honum jafnarma kross ásamt nafni félagsins, Björgunarfélag Vestmannaeyja. Merkið er grænt á rauðgulum fleti.
 • Merkið skal borið á vinstri upphandlegg á yfirhöfnum en á vinstra brjósti á skyrtum og peysum.
 • Félagar skulu bera ofanskráð einkenni við störf félagsins.
 • Fánar, veifur og annað þess háttar skal vera í samræmi við merki félagsins.

 

Réttindi og skyldur

4. grein

Félagar geta þeir einir orðið sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Verða að vera minnsta kosti 18 ára á inntökuárinu og hafa hlotið samþykkt félagsstjórnar.
 • Hafa hlotið undirbúningsþjálfun.
 • Félagar skulu bera ábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á skuldbindingum félagsins.
 • Nafnaskrá yfir alla félaga skal jafnan vera til hjá stjórn félagsins. Hver félagi skal fá skírteini sem sýnir að hann er löglegur félagi. Við inngöngu í félagið skal hver félagi undirrita eiðstaf félagsins. Eiðstaf er hægt að rita undir tvisvar á ári. Á aðalfundi og árshátíð félagsins.
 • Félagsaðild er ekki bundin við búsetu í Vestmannaeyjum.
 • Inntökubeiðnir og úrsagnir úr félaginu skulu vera skriflegar og sendar félagsstjórn.
 • Eignir félagsins eru sameign félagsmanna og getur enginn einstakur félagsmaður gert tilkall til þeirra.

 

5. grein

Félagi getur sætt brottrekstri úr félaginu fyrir eftirtaldar sakir:

 • Ef hann verður ber að því að spilla áliti félagsins eða vekja tortryggni hjá félögum þess.
 • Ef hann hefur áfengi eða eiturlyf um hönd í starfi fyrir félagið.
 • Ef hann sýnir félaginu ítrekuð vanskil.
Ályktar nú stjórnin að félagi sé rækur úr félaginu skal hún tilkynna það skriflega.
Sætti hlutaðeigandi sig ekki við úrskurð stjórnarinnar, getur hann skotið máli sínu til
næsta félagsfundar.

 

Skipulag

6. grein

Aðalfundur er æðsta vald í félagsmálum og tekur þær ákvarðanir um starfsemi félagsins sem þörf er á. Rétt til setu á aðalfundi hafa allir fullgildir félagar og skal skrá yfir þá liggja frammi á fundinum.

Aðalfundur skal haldinn fyrir 30.apríl ár hvert.

 

Á dagskrá aðalfundar skal vera:

1.         Formaður setur fundinn og skipar fundarstjóra og fundarritara.
2.         Undirritun eiðstafs.
3.         Skýrsla stjórnar og umræður.

4.         Skýrsla Björgunarbátasjóðs

5.         Skýrsla nýliðastarfs
6.         Skýrsla unglingadeildar
7.         Reikningar lagðir fram til samþykktar.
8.         Lagabreytingar.
9.         Kosning formanns.
10.       Kosning stjórnar
11.       Skýrsla minningarsjóðs.
12.       Kosning þriggja manna stjórnar minningarsjóðs.
13.       Skýrsla Djúpadals-Fræðslusjóðs
14.       Kosning þriggja manna stjórnar Djúpadals-Fræðslusjóðs
15.       Kosning þriggja manna í stjórn Björgunarbátasjóð
16.       Kosning tveggja skoðunarmanna og eins til vara.
17.       Önnur mál

Skýrsla stjórnar og reikningar skulu liggja frammi á fundinum.

 

7. grein

Aðalfundur ákveður árgjald.

 

8. grein

Félagsstjórn getur boðað til félagsfundar þegar henni þykir þörf á. Ennfremur er stjórninni skylt að boða til félagsfundar ef ¼ hluti atkvæðisbærra félaga óskar þess skriflega og tilgreinir fundarefnið. Ef félagsstjórn hefur ekki boðað til fundar 14 dögum eftir að óskin barst geta hlutaðeigandi félagar sjálfir boðað til fundar. Rétt til atkvæðagreiðslu á aðal- og félagsfundum hafa þeir félagar sem greitt hafa árgjald viðkomandi árs.

 

9. grein

Aðalfund félagsins skal boða með opinberri auglýsingu hálfum mánuði fyrir fund til að hann teljist löglegur. Úrslitum ræður einfaldur meirihluti nema um breytingu á lögum þessum, sbr. 19. grein. Fundargerðir skulu ritaðar í fundargerðarbók, lesnar upp á fundi og síðan staðfestar með undirskrift formanns og ritara. Framboð til stjórnar Björgunarfélagsins Vestmannaeyja og Björgunarbátasjóðs Vestmannaeyja skulu berast stjórn Björgunarfélagsins í síðastalagi sólarhring fyrir fund. Ef ekki næst nægjanlegt framboð getur fundarstjóri kallað eftir framboðum fram að kosningum.

 

10. grein

 Stjórn Félagsins skal skipuð 7 mönnum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og 3 meðstjórnendum. Skulu þeir kosnir á aðalfundi. Formaður skal kosinn sérstaklega til eins árs í senn.

Stjórnarmenn skulu kosnir skriflega ef fleiri eru í kjöri samkvæmt tilnefningu, en kjósa á. Kjörtími stjórnar er eitt ár. Endurkjósa má í stjórn svo oft sem vill. Engan má kjósa í stjórn nema hann sé í félaginu. Allir félagar eru skyldir að taka við kosningu eitt kjörtímabil. Þeir einir eru réttkjörnir í stjórn sem við kosningar fá fullan helming greiddra atkvæða.

 

11. grein

Formaður boðar til stjórnarfunda. Stjórnarfundur er lögmætur ef minnst 4 stjórnendur eru á fundi. Úrslitum ræður afl atkvæða, en séu þau jöfn, ræður atkvæði formanns. Allar fundarályktanir skulu færðar í gerðabók og rita viðstaddir undir þær.

Stjórn boðar til félagsfunda og undirbýr fundarmálefni, framkvæmir fundarályktanir og annast störf milli funda. Stjórn leggur fyrir aðalfund til úrskurðar reikninga félagsins næsta ár á undan, er hún sér um að séu endurskoðaðir í tæka tíð, enda fylgi tillögur endurskoðenda og athugasemdir, ef einhverjar eru. Stjórn hefur eftirlit með framkvæmdum og eigum félagsins, innheimtir félagsgjöld og sér um greiðslu á gjöldum félagsins. Stjórn gætir í öllu hagsmuna félagsins og getur leitað aðstoðar landslaga og réttar í málefnum þess ef þörf krefur.

 

12. grein

Allir þeir samningar sem stjórnin gerir fyrir hönd félagsins samkvæmt samþykktum þessum eða fundarályktunum félagsins, eru bindandi fyrir félagið og hvern einstakan félaga. Stjórnendur 5 saman skuldbinda félagið. Stjórnin ber ábyrgð gerða sinna fyrir aðalfundi.

 

13. grein

Hver aðalfundur kýs 2 skoðunarmenn og 1 til vara. Skulu þeir vera í félaginu. Kjörtímabil þeirra er eitt ár. Félagsstjórn er heimilt að fela löggiltum endurskoðenda endurskoðun ásamt hinum kjörnu skoðunarmönnum. Skoðunarmenn skulu sannprófa að reikningar félagsins beri saman við bækur þess. Reikningsár félagsins er frá 1. mars til loka febrúar ár hvert.

 

14. grein

Aðild að félaginu er ekki bundin við það að félagi taki þátt í æfingum félagsins eða björgunarstörfum.

 

15. grein

Stjórn félagsins getur ákvarðað deildarskiptingu innan félagsins.

 

Félagssjóðir

16. grein

Félagið ræður sjálft fjármálum sínum. Sjóði félagsins skal ávaxta í banka og/eða sparisjóði.

Ef starfsemi félagsins leggst niður skulu eignir og tæki félagsins vera í vörslu Skátafélagsins Faxa og Almannavarnarnefndar Vestmannaeyja fyrstu 10 mánuðina.
Ef engar tillögur hafa verið gerðar til að endurvekja félagið að þeim tíma liðnum skal lúta lögum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

  

Ýmis ákvæði

17. grein

Félagið er aðili að Slysavarnafélaginu Landsbjörg, landssambandi björgunarsveita og lýtur lögum og samþykktum þess eftir því sem við á. Félagið skal jafnan kappkosta að hafa samstarf við yfirvöld, almannavarnir og aðra björgunaraðila í landinu og sýna tillitssemi og drengskap í starfi sínu.

 

18. grein

Félagið starfar í tengslum við Skátafélagið Faxa í Vestmannaeyjum.

 

19. grein

Lögum þessum verður ekki breytt nema á aðalfundi og hljóti minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Þegar leggja á fyrir fund tillögu um breytingu á lögum, skal þess jafnan getið í fundarboði. Breytingartillögur þær sem ekki koma fram fyrr en á fundi þurfa 4/5 hluta greiddra atkvæða til þess að fá gildi.

 

20. grein

Björgunarfélag Vestmannaeyja hefur minningarsjóð sem heitir minningarsjóður Sigurðar I. Magnússonar.

Sérstök 3 manna stjórn sér um málefni sjóðsins og er hún kosin á aðalfundi félagsins

 

21. grein

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Aðalfundur 3 sept 2020