Stutt ágrip af sögu Hjálparsveit skáta Vestmannaeyja:
Sigurður Þ. Jónsson
 
Það er margt sem kemur upp í hugann þegar maður lítur yfir þau 15 ár sem Hjálparsveit skáta Vestmannaeyjum hefur starfað. Best er að byrja á byrjuninni og rekja sig fram til dagsins í dag.
 
Sumarið 1965 er á margan hátt minnistætt fyrir mig. Um vorið ákváðum við fimm skátar héðan úr Eyjum að taka þátt í landsmóti Sænskra skáta er halda átti í byrjun ágústmánaðar. Nokkru fyrir Þjóðhátíð kvaddi þáverandi félagsforingi Faxa, Jón Ögmundsson, hóp stráka úr félaginu saman til fundar og kom með þá hugmynd að stofna innan félagsins hjálparsveit.
 
Á fundinum voru um tuttugu manns, flestir á aldrinum 15 til 18 ára, og tóku þeir vel í hugmyndina. Ástæðan fyrir þessum fundi var sú að forráðamenn Þjóðhátíðarnefndar Týs höfðu rætt þessi mál við Jón og farið fram á að skátar sæju um fyrstu hjálp á hátíðinni. Á fundinum var svo samþykkt að verða við beiðni Týrara og lagt var á ráðin um hvernig Þjóðhátíðarstarfið skildi fara fram. Þegar var hafist handa og byrjað að undirbúa starfið, reynt var að fá lánaðan þann tækjakost og búnað er til þurfti.
 
Þegar hér er komið sögu lögðum við fimm sem áður er um getið af stað til Svíþjóðar og tókum því ekki þátt í lokaundirbúningi fyrir Þjóðhátíðina, né störfum á henni. Ég er því ekki til frásagnar um störf sveitarinnar á þessari Þjóðhátíð er sveitin var með skyndihjálparþjónustu í fyrsta sinn. Til sveitarinnar leituðu um 150 manns er höfðu orðið fyrir ýmsum skakaföllum. Þegar við komum til baka frá Svíþjóð hafði verið ákveðið að halda starfi sveitarinnar áfram. Um haustið var Örn Bjarnason læknir með námskeið í skyndihjálp fyrir sveitarmeðlimi. Farið var í gönguferðir, haldnir fundir og fleira.
 
Í janúar 1966 var tekin ákvörðun um að setja sveitinni stjórn og ganga formlega frá stofnun hennar. Þann 29. janúar var haldinn aðalfundur og fyrsta stjórn sveitarinnar kosin. Samþykkt voru lög fyrir sveitina og kosið í nefndir. Í fyrstu stjórn sveitarinnar voru: Örn Bjarnason sveitarforingi, Halldór Svavarsson aðstoðarsveitarforingi, Sigurður Þ. Jónsson ritari og Sigurjón Einarsson gjaldkeri. Til vara voru kosnir Hörður Hilmisson og Gunnar Hinriksson.
 
Á fundinum var afhent bankabók með tuttugu og fimm þúsund krónum frá Slysavarnadeildinni Eykyndli og síðan hafa sveitinni oft borist góðar gjafir frá slysavarnakonum og færi ég þeim alúðarþakkir fyrir. Þessi fjárhæð var notuð til að kaupa á fjórum handtalstöðvum sem oft hafa komið sér vel í starfi sveitarinnar. Um veturinn 1966 voru æfingar í hjálp í viðlögum, leitaræfingar og farið var í fjöll og bjargsig æft. Sveitin var kölluð út einu sinni til leitar þennan vetur.
 
Þjóðhátíðina 1966 var sveitin aftur með skyndihjálparþjónustu og fékk þrjá menn frá Hjálparsveit skáta Reykjavík sér til aðstoðar eins og árið áður. Á þessari Þjóðhátíð störfuðu á vegum sveitarinnar 22 félagar og um 90 manns leituðu aðstoðar sveitarinnar.
 
Í október 1966 var haldinn aðalfundur. Á fundinum var ákveðið að fjölga í stjórn sveitarinnar, þannig að foringjar hinna ýmsu hópa er störfuðu í sveitinni var bætt við stjórnina. Sömu menn voru kosnir í aðalstjórn, en við bættust: Bjarni Sighvatsson foringi sjúkrahóps, Hörður Hilmisson foringi fjallahóps og Jón Ögmundsson foringi almennshóps. Á þessu starfsári voru æfingar eins og árið áður. Sveitin var kvödd út til leitar þrisvar sinnum á þessu starfsári.
 
Á Þjóðhátíðinni 1967 starfaði sveitin í fyrsta skipti án aðstoðar félaga úr H.S.S.R. Tuttugu félagar úr sveitinni störfuðu á þessari Þjóðhátíð og til þeirra leituðu um 187 aðilar aðstoðar.
 
Aðalfundur var svo haldinn 25. nóvember og urðu þá breytingar á stjórn sveitarinnar. Halldór Svavarsson var kosinn sveitarforingi, aðstoðarsveitarforingi og foringi almennshóps var kosinn Jón Ögmundsson, ritari Sigurður Þ. Jónsson, gjaldkeri Sigurjón Einarsson, foringi sjúkrahóps Bjarni Sighvatsson og foringi fjallahóps Hörður Hilmisson. Ég hef nú gert fyrstu árum í sögu sveitarinnar nokkur skil, og ætla því að fara fljótar yfir sögu.
 
Á næstu árum er starf sveitarinnar svipað, farið í göngu- og sigæfingar og æfð var hjálp í viðlögum. Meðlimir sveitarinnar fóru í nokkrar ferðir til Surtseyjar og upp á land. Sveitin starfaði á Þjóðhátíðum, fyrst í 50 fm tjaldi, en síðan fékk hún afnot af gamla golfskálanum. Sveitin var kvödd út í leitir að týndu fólki og til aðstoðar í margskonar tilfellum. Á aðalfundi í janúar 1970 var Bjarni Sighvatsson kosinn sveitarforingi og Sigurður Þ. Jónsson aðstoðarsveitarforingi.
 
Mikil breyting varð á starfi sveitarinnar árið 1971, en þá gaf Sighvatur Bjarnason í Ási sveitinni plastbát, 14 feta langan. Þarfnaðist báturinn nokkurrar viðgerðar, var hann lagfærður og reyndist hann vel. Þorsteinn Sigurðsson á Blátindi styrkti svo sveitina til kaupa á mótor fyrir bátinn. Báturinn var mikið notaður, farnar voru æfingaferðir í flestar úteyjar, einnig var báturinn notaður við leitir og önnur störf sveitarinnar. Síðan sveitin fékk þennan bát hefur hún alltaf átt bát, þó skipt hafi verið um tegundir báta og mótora.
 
Þann 29. nóvember 1971 var stofnað landssamband hjálparsveita skáta, og var H.S.V. ein af 9 stofnsveitum sambandsins.
 
Frá byrjun hafði verið erfitt að afla fjár til starfsemi sveitarinnar, og var sveitin mjög fjárvana fyrstu árin. Á árinu 1971 fór að rætast úr fjármálunum. Um sumarið tók sveitin að sér innheimtu aðgangseyris að leikjum Í.B.V. og fékk að launum 10% af aðgangseyri. Gerði þetta sveitinni kleift að kaupa ýmis tæki til starfsemi sinnar. Um áramótin 1971 - ´72 var sveitin í fyrsts skipti með flugeldasölu. Flugeldasala hefur síðan verið um hver áramót og verið helsta tekjulind sveitarinnar.
 
Á aðalfundi í apríl 1972 var kosin ný stjórn fyrir sveitina. Í henni voru: Sigurður Þ. Jónsson sveitarforingi, Ólafur Einar Lárusson aðstoðarsveitarforingi og aðrir í stjórn voru Bjarni Sighvatsson, Ólafur Magnússon, Kjartan Eggertsson og Pétur Sigurðsson.
 
Starfið gekk svipað fyrir sig og um undanfarandi ár. Seinni part ársins kynntust meðlimir sveitarinnar Júgóslavneska fjallgöngumanninum Nebojsa Hadzic. Farið var þess á leit við hann að hann tæki að sér að kenna sveitarmeðlimum fjallamennsku. Haustið 1972 voru æfðar af miklum krafti þær aðferðir við klifur og fjallaferðir sem voru meðlimum sveitarinnar framandi í fyrstu, en þeir voru fljótir að tileinka sér hinar nýju aðferðir undir góðri og markvissri kennslu Nebojsa.
 
Rétt fyrir áramót fékk sveitin afnot af húsnæði að skólavegi 13. Var hafist handa um að innrétta það húsnæði fyrir starfsemi sveitarinnar og flugeldasölu. Ákveðið var að festa kaup á húsnæðinu þegar fjárhagur sveitarinnar leifði.
 
Eftir áramót 1973 var unnið af krafti við að klára innréttingar að skólavegi 13, og síðasta kvöldið sem sveitin vann þar var mánudaginn 22. janúar. Var lokið við að setja upp milliveggi og negla þilplötur. Hætt var að vinna um kl. 22.30 og fóru þá menn hver til síns heima, en ekki leið á löngu þar til meðlimir sveitarinnar hittust á ný.
 
Eins og öllum er kunnugt hófst eldgos hér á Heimaey nokkuð eftir miðnætti þann 23. janúar 1973. Rétt upp úr kl. 02 hringdi aðstoðarsveitaforingi Ólafur E. Lárusson í mig og sagði að eldgos væri hafið á austurhluta eyjunnar. Hann varð að segja mér þetta tvisvar áður en ég tók hann trúanlegan. Við hófumst þegar handa og byrjuðum að hringja út meðlimi sveitarinnar. Gekk það vel fyrst, en fljótlega var ómögulegt að nota síma vegna ofhleðslu á símakerfinu. Sveitin var komin um kl. 02.30 niður í skátaheimili er þá var í kjallara Félagsheimilisins við Heiðarveg. Gripum við útbúnað sveitarinnar og hröðuðum okkur niður á lögreglustöð.
 
15 félagar úr sveitinni voru að störfum þessa nótt. Fyrsta verkefni sveitarinnar var að flytja vistfólk af elliheimilinu Skálholti niður á bryggju og koma fólkinu um borð í báta. Er því var lokið fórum við að flytja sjúklinga af sjúkrahúsinu upp á flugvöll og koma þeim um borð í flugvélar. Þegar þessu var lokið fórum við um bæinn og aðstoðuðum fólk er var með sjúklinga í heimahúsum og gamalt fólk við að komast upp í flugvöll og um borð í flugvélar, þessu var lokið um kl. 09 um morguninn. Á eftir fórum við að hjálpa fólki að flytja búslóðir og aðstoðuðum slökkviliðið.
 
Þegar sá frægi " Patton " Sveinn Eiríksson slökkviliðsstjóri á Keflavíkurflugvelli kom til Eyja, fór sveitin ásamt honum og fleirum í að negla járnplötur fyrir glugga er snéru að eldstöðvunum í húsum í austurhluta bæjarins. Meðlimir sveitarinnar unnu síðan við ýmis störf, bæði fyrir björgunar- og varnardeild " Pattons ", sumir unnu með slökkviliðinu, en aðrir gegndu ýmsum störfum hér í Eyjum meðan gosið stóð. Meðan á starfi sveitarinnar í gosinu stóð, týndist mikið af útbúnaði sveitarinnar, en hún fékk síðan útbúnaðinn bættan frá Viðlagasjóði. Læt ég nú þessu spjalli um gosið lokið, en sný mér aftur að sveitarstarfinu sjálfu.
 
Um vorið var farið að æfa fjallamennsku aftur og nú upp á landi sem hér í Eyjum. Ákveðið var að fara til útlanda í klifurferð og stefnan sett á Mont Blanc í Frakklandi, hæsta fjall Evrópu. Við fórum út í ágúst, um 15 manna hópur, og hafðist að klífa "Blankinn" þó ýmsir hefðu talið þetta algera dellu og fullyrt að félagar úr sveitinni gætu aldrei komist upp á þetta fjall.
 
Um haustið 1973 voru æfingar og starf sveitarinnar í nokkuð föstum skorðum, en þó bættist við nokkuð mikil vinna við að gera við  og innrétta húsnæðið á Höfðavegi 25 er Faxasjóður hafði keypt og afhent skátafélaginu Faxa og Hjálparsveit skáta til afnota.
 
Upp úr áramótum var stefnan sett á aðra klifurferð erlendis og strikið sett á Kilimanjaro í Tansaníu, hæsta fjall Afríku. Æft var af miklum krafti fyrir þessa ferð, og var þetta einhver stífasta æfingaráætlun sveitarinnar er ég man eftir. Það tókst vel, þrír komust upp á toppinn, en hinir upp á Gilmanspoint tæplega 250 m fyrir neðan toppinn. Ferðin til Afríku tók mánuð og var í alla staði hin skemmtilegasta.
 
Um sumarið 1974 tók Ólafur Einar Lárusson við starfi sveitarforingja, en aðstoðarsveitarforingi varð Eiríkur Þorsteinsson, þetta sumar réðist sveitin í að kaupa Bedford slökkvibifreið af Viðlagasjóði og var byrjað að breyta henni um haustið og stóð breytingarvinnan yfir langt fram á árið 1975. Eftir Þjóðhátíð það ár var ráðist í mikla landreisu á bílnum, farið með ríkisskip til Hornafjarðar, ekið þaðan í Skaftafell og stefnan tekin á tindinn Þumal sem er í jaðri Vatnajökuls, tindur þessi var talin ókleifur. Gerð var tilraun til að klífa tindinn, og tókst það þó tindurinn væri erfiður. Frá Skaftafelli var farið í Landmannalaugar eftir Fjallabaksleið, þaðan norður Sprengisand til Mývatns. Síðan var farið niður með Jökulsárgljúfrum og haldið til Akureyrar. Ekið var til Siglufjarðar, þaðan gengið út í Héðinsfjörð og verið þar við silungsveiðar í nokkra daga. Frá Siglufirði var ekið til Reykjavíkur. Þetta var mjög skemmtilegt ferðalag í alla staði.
 
Starfið gekk sinn vanagang, um haustið var tekin upp sú nýbreytni að félagar úr sveitinni dvöldu á slysavarðstofu sjúkrahússins á laugardagskvöldum og fram undir sunnudagsmorgunn. Þar aðstoðuðu þeir lækna við aðgerðir á slösuðum og fengu kennslu í hjálp í viðlögum.
 
Í nóvember tók Eiríkur Þorsteinsson við stjórn sveitarinnar vegna þess að Ólafur E. Lárusson fór til náms í Reykjavík. Í byrjun árs 1976 var rætt um utanlandsferð á sumrinu, og voru ýmsir staðir í sigtinu. Á endanum var ákveðið að fara upp í Alpana og stefna á Matterhorn sem aðaltakmark.
 
Farið var af stað í júlí á tveim bílum, en svo slysalega vildi til að þeir rákust hvor á annan við Mývatn og þar með fór ferðaáætlunin öll úr skorðum. Áfram var þó haldið og Matterhorn klifið í ágúst. Gerð var tilraun til að klífa Mont Blanc, en tókst ekki vegna veðurs. Áður en heim var snúið var fjallið Montenberg í Sviss klifið.
 
Á aðalfundi í apríl 1976 var Bjarni Sighvatsson kjörinn sveitarforingi í annað sinn. Starf sveitarinnar gekk sinn vanagang árin 1976 - 1977. Félagar úr H.S.V. stunduðu æfingar hér heim og fóru einnig í auknum mæli á fastalandið til æfinga, bæði á vegum H.S.V. og Landssambands hjálparsveita skáta og með öðrum aðildarsveitum L.H.S.
 
Árin 1978 - 1980 voru þessir sveitarforingjar: Sigurður Ásgrímsson, Daði Garðarsson og Eiríkur Þorsteinsson. Ég hef nú í fljótheitum rennt augum yfir fyrstu 15 ár í starfi sveitarinnar, staldrað við á einstaka stað og sleppt mörgu. Á einn þátt sem sett hefur svip á starf sveitarinnar hef ég ekki minnst, en ætla rétt að nefna, þetta eru páskaferðirnar.
 
Frá árinu 1973 hefur verið farið um páskana í ferðalög, oftast í Þórsmörk. Hafa þetta verið með skemmtilegustu ferðum sveitarinnar. Hefur verið farið í erfiðar göngur um Þórsmörk, stundum í sól, stundum í kafaldssnjó eða rigningu, en aldrei man ég til að veður hafi heft menn í að fara út. Þegar veður hefur verið gott hefur verið farið á Eyjafjallajökul, en í slæmu veðri hefur verið farið um Mörkina sjálfa.
 
Ég hef verið í stjórn sveitarinnar frá upphafi og gengt þar flestum stöðum og má segja að 15 ára seta í stjórn sé helst til of langur tími. Á þessum tíma hefur gengið á ýmsu fyrir sveitinni. Fyrst fór hún hægt af stað, en efldist smátt og smátt. Árið 1972 tók hún svo mikið stökk fram á við og á árunum ´73 og ´74. Vill ég meina að sveitin hafi verið með best þjálfuðu og örugglega best útbúna björgunarsveit Íslandinga. Í Frakklandi ´73 var keyptur mikill útbúnaður fyrir sveitina og félagar úr henni keyptu einnig mikinn persónuútbúnað. Á þessum tíma var ekki hægt að fá slíkan útbúnað hér á landi. Það breyttist, og nú hafa margar sveitir keypt slíkan búnað og sama er að segja um meðlimi þeirra.
 
Síðan 1974 hefur starfið gengið svona upp og niður, starfað hefur verið af krafti en lægðir orðið á milli. Við þessu er lítið að gera og ég býst við að allir sem komið hafa nálægt félagsstarfi þekki þetta af eigin raun. Í þau 15 ár sem ég hef starfað, hef ég farið í flestar ferðir sem sveitin hefur farið, bæði hér heima og erlendis, tekið þátt í starfi hennar eftir fremsta megni. Þegar ég lít yfir farinn veg sé ég ekki eftir þeim tíma né öðru sem ég hef lagt fram til starfa fyrir sveitina, öðru nær, ég held að sveitin hafi veit mér meira en ég hef fyrir hana gert. Í sveitinni hefur hefur ríkt góður andi, samheldni og áræði þegar á hefur reynt. Á góðum stundum hefur verið slappað af og glaðst í góðum hóp. Einn stórann skugga ber þó á þessar endurminningar mínar frá starfi sveitarinnar.
 
Á æfingu í Falljökli, sem er skriðjökull í Eyjafjallajökli, í nóvember 1976, varð það óhapp að fjórir félagar úr sveitinni hröpuðu í jökulsprungu og slösuðust allir. Kjartan Eggertsson hlaut mikið högg og slasaðist illa á höfði þótt hann væri með klifurhjálm. Kjartan lést af afleiðingum þessa slyss í júlí ´77. Ég hafði starfað með Kjartani í sveitinni í mörg ár. Hann var alltaf tilbúinn til starfa, og hlífði sér hvergi. Kjartan var góður félagi og vinur og hafði það djúp áhrif á alla meðlimi sveitarinnar að einn sá duglegasti og áræðnasti skildi vera kallaður burt í blóma lífsins.
 
Um leið og ég lýk þessu greinarkorni um H.S.V. í 15 ár, langar mig til að þakka öllum þeim fjölmörgu sem lagt hafa sveitinni lið og stutt hana á margan hátt, bæði í orði og verki.
 
Vestmannaeyjum, 13 júlí 1980.
Sigurður Þ. Jónsson.