Ferð á Mont Blanc 1998


Kláfurinn brunaði markvisst upp hlíðina með okkur þrjá innanborðs ég horfði til skiptis út og á félaga mín Bjarna Halldórsson og Davíð Friðgeirsson. Allir um borð voru fjallamenn, engir túristar voru leyfðir vegna veðurs. Kláfurinn gekk frá Chamonix og upp á Plan de I'Aiguille þar var skipt um kláf og haldið áfram upp á Aiguille du Midi sem er 3842 metra hár. Á Aiguille de Midi er hægt að skoða tindana í kring í góðu skyggni, þar eru líka veitingastaður, kaffihús og annað þess háttar. En við ætluðum ekki að skoða það. Hugmyndin hjá okkur var að gista í tjaldi á sléttunni fyrir neðan tindinn, nánar tiltekið á Col du Midi sem er í 3532 m hæð, síðan ætluðum við á öðrum degi að fara upp á Mt. Blanc du Tacul. Það var svo á aðfarnóttþriðja dags á jöklinum sem ætlunin var að reyna við Mt. Blanc.

           Um fimmleytið á þessum miðvikudegi vorum við að leggja af stað niður af Aiguille du Midi í átt að sléttunni. Þegar við vorum komnir skammt á veg niður einstigið frá kláfstöðinni tók ég eftir því að hárið á Davíð reis í loft upp. Þegar ég leit við til að segja Bjarna frá þessu tók ég eftir að hárið á honum stóð líka uppí loftið. Þá áttuðum við okkur á því að þrumuveðrið væri að koma, ákváðum við þá að hraða för okkar niður að tjaldbúðunum.

            Á meðan við tjölduðum og elduðum skall þrumuveðrið á með tilheyrandi látum. Voru eldingarnar að lenda í eldingavaranum á Aiguille du Midi sem var í innan við 500 metra fjarlægð frá okkur. Var þetta stórkostleg upplifun að sjá eldingar lenda svo nálægt og heyra drunurnar sem fylgdu í kjölfarið. Þegar við vorum búnir að borða komum við okkur fyrir í tjaldinu, var þá komin slydda og hávaða rok. Okkur gekk misjafnlega að sofna bæði vegna hávaða í veðri og vegna hæðar.

            Ég vaknaði um áttaleytið um morguninn við það að Davíð spurði hvort við ættum að fara að koma okkur af stað. Þennan dag ætluðum við okkur að nota til að komast á Mt. Blanc du Tacul sem er 4182 m hátt. Davíð eldaði handa okkur hafragraut sem bragðaðist ágætlega með miklum sykri. Ekki það að Davíð sé lélegur kokkur heldur keyptum við lélegt haframjöl. Þegar við vorum ferðbúnir fórum við í línu, Davíð fremst, ég í miðjunni og Bjarni aftast. Veðrið var ágætt, skýjað en snjórinn blautur eftir rigninguna um nóttina.

            Ekki leið langur tími þar til við komum að fyrstu hindruninni, sem var 7 m langt klifur upp sprungu og einstigi þar fyrir ofan. Frá henni var leiðin greið en þá helltist yfir þoka og var skyggni 25-50 metrar. Ákváðum við þá að snúa við á meðan slóðin var enn greinileg.

            Gekk niðurferðin greiðlega og vorum við komnir niður að tjaldinu um hádegisbil. Meðan við borðuðum ræddum við möguleika okkar í stöðunni. Vorum við sammála um það, þar sem við höfðum ekki áreiðanlega veðurspá. Urðum við ásáttir um það að pakka saman og fara aftur niður í Chamonix, þurrka búnaðinn og athuga með veðurspá. Töldum við að við yrðum að byrja upp á nýtt, jafnvel að velja aðra leið upp á tindinn, kom þá helst svokölluð Goûter-leið. Leiðin upp í kláfstöðina var erfið, þá helst vegna þess að við vorum með mjög mikinn búnað, þar sem við höfðum ekki ætlað okkur að tjalda til einnar nætur, og líka vegna þess að við vorum illa sofnir og færið þungt.

            Niður í Chamonix réðum við ráðum okkar, við fórum í upplýsingamiðstöðvar bæði fyrir almenna ferðamenn og líka í franska alpaklúbbinn. Okkur var bent á að Goûter-leiðin væri sérstaklega hættuleg vegna grjóthruns og ráðið frá því að fara hana. Þrátt fyrir þessar upplýsingar þá vildum við frekar fara hana heldur en leiðina frá Col du Midi. Við Þurftum hins vegar ekki mikinn tíma til að ákveða okkur, það var allt upppantað í Goûter-skálanum, þess vegna urðum við að fara leiðina frá Col du Midi. Við pöntuðum gistingu í Cosmique skálanum sem er fyrir ofan Col du Midi.

            15. ágúst vorum við aftur komnir í kláfinn sem flutti okkur upp í Aiguille du Midi. Þar sem við höfðum nógan tíma þá skoðuðum við okkur um. Á Aiguille du Midi er eins og áður sagði veitingastaðir og þess háttar, þar eru líka útsýnispallar sem við nýttum til að skoða leiðina framundan og tindinn sem beið okkar. Mt. Blanc skartaði sínu fegursta þennan dag. Eftir að hafa legið í sólbaði á pöllunum gengum við sömu leiðina og áður og upp í skálann Cosmique. Þar borðuðum við kvöldmat og fljótlega eftir hann fórum við að sofa.

            Vöknuðum klukkan eitt um nóttina og eftir morgunmat gerðum við okkur klára fyrir gönguna. Í þetta skiptið var Bjarni fremst, ég í miðjunni og Davíð aftast. Korter yfir tvö lögðum við svo af stað. Gengum við niður á Col du Midi og þaðan sömu leið og þremur dögum fyrr. Gangan gekk greiðlega að þessu sinni, enda færið gott og veðrið yndislegt. Þar uppi nærðum við okkur og skoðuðum stjörnurnar sem sáust mjög vel þarna uppi. Þegar við vorum komnir niður af Mt. Blanc du Tacul tóku hinar snarbröttu hlíðar Mt. Maudit við. Er þetta talinn hættulegasti hluti þessarar leiðar.

            Á toppi Mt. Maudit tókum við aðra pásu og lögðum svo af stað í síðasta áfangann. Leiðin niður af Mt. Maudit getur verið mjög hættuleg, sérstaklega við þær aðstæður sem þarna voru, harðfenni og þar af leiðandi erfitt að stoppa sig ef maður rynni af stað. Komumst við klakklaust framhjá þessari hindrun. Þegar við áttum eftir 300 metra á toppinn gengum við fram á tvo menn. Annar þeirra var illa farinn af hæðaveiki og orðinn mjög kaldur.

            Þegar hér var komið var veðrið ekki eins gott, hvassviðri, frost og skafrenningur. Skutum við upp neyðarblysum til að ná í hjálp og gáfum þeim af nestinu okkar. Eftir um klukkutíma komu tveir Þjóðverjar, vildu ólmir hressa manninn við svo hann kæmist sjálfur niður. Bentum við þeim á að hann kæmist aldrei niður af eigin rammleik, til þess væri allt of löng ganga. Þegar við vissum að manninum yrði bjargað lögðum við af stað á toppinn. Þessir síðustu 300 metrar reyndust okkur erfiðir vegna þess að við vorum orðnir þrekaðir eftir að hafa hjúkrað manninum í um einn og hálfan tíma. Það voru þreyttir en ánægðir Eyjapeyjar sem náðu tindi Mt. Blanc um klukkan hálf ellefu. Það eina sem skyggði á gleðina var að skyggnið var innan við 50 metrar. Eftir stutt stopp héldum við niður.

            Við fórum ekki sömu leið niður og við höfðum farið upp heldur völdum að fara Grand Mulets leiðina, hún er mjög löng en aflíðandi og endar í Plan de I'Aiguille kláfstöðinni. Fyrst var samt að komast niður hrygginn að neyðarskýlinu Refuge du Vallot.Troðningurinn niður hrygginn er mjór og beggja vegna við hann eru snarbrattar hlíðar sem við sáum ekki fyrir endann á. Þegar við vorum komnir framhjá neyðarskýlinu kvíslaðist leiðin. Annars vegar var Goûter leiðin og hins vegar Grand Mulets leiðin, sú sem við völdum. Losuðum við okkur úr línunni og tókum af okkur broddana. Var snjórinn orðinn blautur og færið þungt en þar sem vorum á leiðinni niður þá varð það okkur ekki til trafala.

            Eftir tveggja og hálfs tíma göngu, sem einkenndist af að renna á rassinn eða renna sér á rassinum komum við að skriðjökli. Þar sem sáum fram á nokkuð brölt þá ákváðum við að fara í línu og skella undir okkur broddunum. Þegar við ætluðum að setja á okkur broddana kom babb í bátinn, í einhverri byltunni á leiðinni niður höfðu broddarnir hans Davíðs losnað af bakpokanum og voru núna týndir og tröllum gefnir. Þetta var að sjálfsögðu svolítið slæmt mál miðað við leiðina framundan, breyttum við skipulagningu í samræmi við það þannig að Bjarni var fremstur, Davíð í miðjunni og ég var orðinn aftastur.

            Framan af gekk þetta ágætlega þar sem snjórinn var ennþá mjúkur og gat Davíð fótað sig sæmilega. Eftir því sem neðar dró varð jökullinn meira sprunginn og þurfti að ganga oft fram og til baka  bara til að komast smá spöl í áttina að kláfstöðinni. Við fundum svo fótspor sem við eltum þvers og kruss yfir skriðjökulinn í tæpan klukkutíma en allt í einu var slóðin horfin. Klukkan var orðin hálf fjögur og okkur leist ekkert á að reyna að rata í gegnum völundarhúsið einir, það var stutt í Grand Mulets skálann og fórum við þangað. Þegar þangað kom hittum við úkraínska viðskiptamenn frá Þýskalandi. Þeir spurðu okkur hvort jökullinn væri ófær, við sögðumst ekki vita það en við treystum okkur ekki til að rata yfir jökulinn. Þeir reyndu að kalla út þyrlu til að sækja sig og hugsanlega okkur.

            Var nokkur beygur í okkur að þiggja það vegna þess að við vissum að það var langt frá því að vera ódýrt en biðum samt til að sjá hvað yrði. Fljótlega sáum við þyrlu koma upp eftir jöklinum, en í stað þess að sækja þremenningana þá lenti hún á jöklinum og tveir menn stukku út. Fylgdumst við svo með þyrlunni leiðbeina mönnunum tveimur yfir jökulinn. Síðan þegar þeir virtust vera komnir eitthvað áleiðis snéru þeir við og merktu leiðina sem þeir höfðu farið með rauðum fánum.

            Ekki leið á löngu þangað til að skálvörðurinn flutti þær fréttir að þyrlan kæmi ekki en það væri búið að merkja leiðina og það ætti ekki að taka meira en tvo tíma að komast á kláfstöðina. Þá var ekkert annað en að leggja í hann. Héldum við sömu röð og áður, þ.e. Davíð á milli okkar Bjarna. Var færið verra þegar við komum neðar, mjúki snjórinn breyttist í harðan ís og reyndist það mjög erfitt, sérstaklega vegna þess að Davíð var broddalaus.

            Þannig gekk þetta að ég slakaði Davíð niður og Bjarni hífði hann upp. Eftir tvo og hálfan tíma komumst við loksins heilir af jöklinum og eftir um hálftíma í viðbót þá vorum við komnir að yfirgefinni kláfstöð, les Glaciers, þaðan liggur göngustígur niður að gangnamunnanum á Mont Blanc göngunum. Gengum við niður stíginn í þrjá og hálfan tíma og vorum orðnir framlágir þegar við komumst loksins niður að tollstöðinni við göngin. Áttum við þá aðeins klukkutíma eftir í það að ferðin hefði tekið einn sólarhring.

Einar Örn Arnarsson