Aska gæti fallið í Eyjum á laugardag


Um þessar mundir berst mikil aska frá eldgosi í Eyjafjallajökli. Askan berst þessa stundina ekki til Vestmannaeyja enda hefur vindur blásið að mestu leyti úr vestri síðan gosið hófst og þannig beint gosmekkinum frá Eyjum. Samkvæmt veðurspánni mun vindáttin hins vegar snúast til norðurs um helgina og á laugardaginn gæti því fallið aska í Eyjum. Landlæknir hefur birt á heimasíðu sinni helstu einkenni sem gæti komið í kjölfar innöndunar á gosösku.
Askan er samsett úr fínum ögnum og stærri ögnum. Vindátt og aðrar aðstæður ráða því hvar askan fellur. Efnagreining á öskunni hefur ekki borist ennþá en vitað er að aska úr eldstöðvum þaðan geta innhalda mikið af flúor, sem getur haft bæði bráð- og langvinn eituráhrif á grasbítandi dýr. Gosaska getur einnig haft áhrif á fólk en helstu einkenni eru frá:
 
Öndunarfærum:
Nefrennsli og erting í nefi
Særindi í hálsi og hósti
Fólk sem þjáist af lungnasjúkdómum, t.d. astma, getur fengið berkjubólgur sem varar í marga daga og lýsa sér í hósta, uppgangi og öndunarerfiðleikum
 
Augum: 
Gosaska getur ert augu einkum ef augnlinsur eru notaðar. Helstu einkenni eru:
Tilfinning um aðskotahlut
Augnsærindi, kláði, blóðhlaupin augu
Útferð og tárarennsli
Skrámur á sjónhimnu
Bráð augnbólga, ljósfælni
 
Ráðleggingar til fólks þar sem öskufalls gætir:
Nota öndunarfæragrímur utanhúss. Æskilegt að nota hlífðarföt.
Séu öndunarfæragrímur ekki tiltækar má nota vasaklút eða annan klæðnað sem heldur stærri ögnum frá.
Ráðlagt að nota hlífðargleraugu.
Börn og fullorðnir með öndunarfærasjúkdóma skyldi halda sig innanhúss.
 
Skola ef einkenna verður vart 
Á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja fengust þær upplýsingar að ef einkenna verður vart, ætti viðkomandi að drekka vatn og reyna hreinsa ertinguna út. Það má t.d. gera með saltvatni, blanda saman salti og vatni og hreinlega sjúga saltvatnið upp í nefið og þannig hreinsa það. Þá er þeim sem eru veikari fyrir bent á að halda sig innandyra ef minnsti grunur leikur á að aska nái til Eyja.
 
Tilkynning til búfjáreigenda í Vestmannaeyjum
Vestmannaeyjabær vill beina þeim tilmælum til búfjáreigenda að huga vel að mögulegu öskufalli vegna eldgoss í Eyjafjallajökli og gera tilheyrandi ráðstafanir. Búfjáreigendum á áhrifasvæði eldgosins er bent á að fylgjast grannt með mögulegu öskufalli, t.d. með því að leggja út hvítan disk. Verði vart við öskufall er mikilvægt að hýsa það búfé sem er við opin hús eða á útigangi, sé það mögulegt. Þar sem því verður ekki komið við, er nauðsynlegt að sjá dýrunum fyrir hreinu drykkjarvatni og koma í veg fyrir að búféð drekki úr kyrrstæðu vatni svo sem pollum og skurðum þar sem aska getur safnast fyrir. Nauðsynlegt er að gefa dýrunum vel og oft af heyi, svo þau séu síður á beit. Einnig er gott að búféð hafi aðgang að saltsteinum.
Aska úr eldstöðvum í Eyjafjallajökli er þekkt fyrir að innhalda mikið af flúor, sem getur haft bæði bráð og langvinn eituráhrif við inntöku. Einnig getur askan haft særandi áhrif á öndunar- og meltingarfæri.
Matvælastofnun birtir nánari upplýsingar á heimasíðu sinni www.mast.is.
 
Bjóða öskuvörn fyrir bíla
Bifreiðaverkstæðið Nethamar býður nú upp á að vörn fyrir bíla gegn öskunni fyrir viðskiptavina sinna, án endurgjalds. Sérstakri olíu er sprautað í loftsíu bílsins sem grípur öskuagnirnar og ver þannig vél bílsins fyrir öskunni. Aðgerðin tekur stutta stund, 10 mínútur eða svo