Eyjapeyjar á toppi Evrópu 2012


Sex strákar frá Vestmannaeyjum lögðu land undir fót í sumar til að klífa þrjá tinda, Mont Blanc, litla og stóra, og Matterhorn.Skilirði og veður var erfitt og komust þeir á aðeins einn þeirra, Mont Blanc, sem er hæsta fjall Evrópu. Bjartur Týr Ólafsson, skrifaði ferðasöguna sem sýnir að ganga á hæstu fjöll Alpafjalla er ekkert grín.

Eyjapeyjar á toppi Evrópu

Mont Blanc - Matterhorn - Mont Blanc I - Þriggja tinda leiðin:

Á leið í Cosmiquesskálann. Eins og sjá má var færð þungt, þoka en ágætis veður að öðru leiti.
 
Mont Blanc I – Þriggja tinda leiðin
Greinarhöfundur - Bjartur Týr Ólafsson, í hlíðum Matterhorn
 
"Innfæddir voru svarstýnir að túristar eins og við kæmumst upp á topp eftir mjög snjóþungan vetur í Evrópu. Í skálanum var rólegt og ekki mikið af fólki, enda höfðu veðurskilyrðin ekki verið eins og best var á kosið. Þar voru leiðsögumenn sem litu hornauga á okkur vegna þess að við höfðum ákveðið að fara upp á eigin vegum en ekki í eftirdragi þeirra."
 
Hópurinn - f.v. fyrir framan, Gísli Matthías og Bjarni Benedikt. Fyrir aftan Bergur, Ásgeir, Bjartur Týr og Ármann Ragnar. Æfðu mismikið, Sumir hlupu á fjöll í Eyjum, Ármann og Gísli fóru á Hvannadalshnjúk og fjórir gengu á Eyjafjallajökul
 
"Tilfinningin að ná toppnum var hreint út sagt frábær, allir gleymdu kuldanum, þreytunni og þunna loftinu og við fögnuðum innilega. Skálað var með harðfisk frá Godthaab og síðan sungum við Sæsavalsinn að vestmannaeyskum sið. Næstu fjallagarpar ráku upp stór augu þegar þeir sáu þessa athöfn okkar og hafa örugglega haldið að við værum með einhverjar lausar skrúfur."
 
Á toppnum - Hópurinn komin á topp Mont Blanc. Skyggni var frábært en mjög kalt. F.v. Ásgeir, Bjartur Týr, Gísli Matthías, lundinn Coco, Bjarni Benedikt og Ármann Ragnar.
 
Stund milli stríða - hópurinn gefur sér tíma til að njóta útsýnisins, sem er ekki af ódýrari gerðinni.
 
Matterhorn - Ekkert fjall í heiminum hefur fangað hug og hjörtu fólks eins og Matterhorn sem rís tignarlegt 4478m yfir fjallabænum Zermatt í Sviss. Þetta mest myndaða og frægasta fjall veraldar á sér langa og stórmerkilega sögu þegar það kemur að fjallamennsku, en þarna glímdu bestu og mestu fjallamenn síns tíma um hver yrði fyrstur til að klífa tindinn. Það var svo árið 1865 sem kapphlaupið um hver yrði fyrstur tók enda. Það að standa á örmjóum tindi Matterhorn með þverhnýptar 2000m hlíðar á alla kanta er eitthvert eftirsóttasta takmark fjallamennskunnar og ótrúleg upplifun.
 
Mont Blanc - Hvítfjall (franska: Mont Blanc, ítalska Monte Bianco) er hæsta fjall í Vestur-Evrópu, 4.808 metrar á hæð.
Konungur Alpanna rís 4807 metra yfir frjósama fjalladali Frakklands og Ítalíu. Þetta margrómaða og eftirsótta fjall krefst ekki mikillar klifur kunnáttu en sökum hæðar að þá krefst það góðs undirbúnings bæði líkamlega og andlega. Ferðaáætlun okkar er sérhæfð til þess að hámarka líkurnar á því að ná góðri hæðar aðlögun sem og nægilegan tíma til að glíma við fjallið ef veður eru válynd. Hæðaraðlögunin fer fram á nokkrum öðrum háum tindum í nágrenni Mont Blanc og gefur okkur tækifæri til að kynnast betur því stórfenglega landslagi sem Alparnir hafa uppá að bjóða.
(Af bergmenn.is)
Um mitt síðasta ár spratt upp sú hugmynd hjá okkur strákunum að fara í ævintýraferð í Alpana. Flugmiðarnir voru keyptir milli jóla og nýárs og eftirvæntingin því mikil þegar komið var fram í júlí. Við vorum 6 saman í þessu: Ármann Ragnar Ægisson, Ásgeir Guðmundsson, Bjarni Benedikt Kristjánsson, Bergur Sigurðsson, Ég (Bjartur Týr Ólafsson) og Gísli Matthías Sigmarsson. Með í för var einnig lundinn Coco sem elti okkur úr Vestmannaeyjum og fékk hann verðskuldaða athygli út í Evrópu. Við flugum út til Mílanó, á Ítalíu, og keyrðum þaðan yfir til Frakklands. Í Frakklandi bjuggum við í tjöldum í bænum Chamonix, sem er rúmlega 1000 m yfir sjávarmál, svolítið annað en við höfum vanist hér heima í Vestmannaeyjum. Frá bænum horfðum við upp á Mont Blanc og létum okkur dreyma um að ná þangað á næstu dögum.
 
Á fjórða degi ferðarinnar vöknuðum við eldsnemma til að ná kláfnum sem fyrst upp á Aguille du Midi, sem er í um 3800m hæð. En vegna mikils vinds fór kláfurinn ekki upp fyrr en um 1 eftir hádegi. Aguille du Midi turninn var gerður fyrir túristana, safn og útsýnisturnar glöddu fólkið sem höfðu keypt sér miða upp og niður en við stefndum töluvert lengra. Þegar við vorum búnir að klæða okkur upp og setja á okkur mannbroddana hófst gangan og fyrsti viðkomustaður var skálinn Cosmiques. Þessi ganga var ekki löng en við fundum strax fyrir því að loftið yfir 3000 metrunum er töluvert þynnra og menn voru furðu móðir þegar við náðum upp í skála. Ég hafði hitt Gunnar Guðmundsson lækni fyrir ferðina og hann sagði mér allt um háfjallaveikina þannig að ég var með réttu lyfin ef eitthvað kæmi upp á. Þegar við vorum búnir að skrá okkur inn í skálann ákváðum við að drepa tímann með því að ganga upp brekkuna að Mont Blanc du Tacul, þarna fengum við góðan tíma til að venjast því að ganga saman í línu og allir gátu fundið hvernig þeir réðu við þunna loftið. 
 
Þegar við höfðum gengið í dágóðan tíma var Bergur orðinn slæmur, hnéð sem hafði angrað hann síðastliðinn vetur var ekki orðið gott og hann tók þá ákvörðun að snúa við. Við snérum svo við fljótlega til þess að ná kvöldmatnum í skálanum. Eftir dýrindis kvöldmat komum við okkur í háttinn en það var „ræs“ klukkan 1 um nótt. 
 
Við vöknuðum í morgunmatinn og komum okkur af stað kl. 2, saddir og sælir. Úti var heiðskýrt og stjörnubjart og bjarminn af tunglinu lýsti upp dalinn sem var mjög tilkomumikið. Fullur skáli af fjallagörpum tæmdist og allir gengu af stað í halarófu upp sömu brekku og við höfðum kannað daginn áður. Allir voru einbeittir og það heyrðist lítið annað en brakið í snjónum undan mannbroddunum. Í myrkrinu voru allir með höfuðljós og ljóslínan leiddi okkur áfram upp brekkuna. Hátt í 100 manns gengu saman í átt að tindnum. Þegar komið var yfir du Tacul hrygginn skall á hífandi rok sem við Vestmannaeyingarnir létum ekki á okkur fá og héldu áfram taktfast á eftir ljósunum. Þá mættum við Bretum sem höfðu leitt hópinn, þeir sögðu okkur að þeir hefðu lent í 10 smáum snjóflóðum og ákveðið að snúa við. Þetta hljómaði alls ekki vel, snjóflóð í brekkunni, og fleiri hópar voru farnir að snúa við. Efir smá rökræður komust við að þeirri niðurstöðu að best væri að snúa við og við sáum að það var hárrétt ákvörðun þegar nánast allir höfðu farið til baka. Þrátt fyrir vonbrigðin ákváðum við þó að toppa a.m.k eitt fjall en við fórum þaðan upp á litla Mont Blanc, Mont Blanc du Tacul sem er í 4248m hæð. Við vorum greinilega ekki þeir einu sem fengu þessa hugmynd en traffíkin þangað var mikil. Þreyttir snérum við svo niður með kláfnum aftur eftir erfiða ferð. 
 
Matterhorn 
Næst lá leið okkar til Sviss, nánar tiltekið smáþorpsins Zermatt, sem er lítið vistvænt samfélag í hlíðum Matterhorn. Matterhorn eða Toblerone-fjallið gnæfir yfir bæinn og maður sá að þetta litla þorp lifði og hrærðist á fjallagörpum sem stefndu á að klífa erfiðasta fjallið í Ölpunum. 
 
Þegar við vorum búnir að koma okkur fyrir á tjaldsvæðinu fórum við upp í fjallim með kláfnum og gengum þaðan að Hörnli skálanum sem var í hlíðum fjallsins. Innfæddir voru svarstýnir að túristar eins og við kæmumst upp á topp eftir mjög snjóþungan vetur í Evrópu. Í skálanum var rólegt og ekki mikið af fólki, enda höfðu veðurskilyrðin ekki verið eins og best var á kosið. Þar voru leiðsögumenn sem litu hornauga á okkur vegna þess að við höfðum ákveðið að fara upp á eigin vegum en ekki í eftirdragi þeirra. Í Frakklandi vorum við varaðir við því að leiðsögumennirnir gætu orðið leiðinlegir við okkur en það er þekkt á Matterhorn að þeir leggja stíga og spotta til að leiða túrista út af veginum svo þeir þurfi að snúa við og kaupa sér leiðsögumann næst. 
 
Í Hörnli skálanum fengum við þær fréttir frá Íslandi að 9 manns hefðu farist í snjóflóði í brekkunni sem við höfðum snúið við úr Mont Blanc, það fór hrollur um okkur alla yfir tilhugsuninni að við höfðum staðið þarna tveimur dögum áður og þurft frá að hverfa vegna snjóflóða. 
 
Þegar við vöknuðum um nóttina var Bjarni kominn með flensu, háfjallaveikin var komin í hann en hann ákvað þó að leggja af stað. Þegar við höfðum gengið í dágóða stund vorum við farnir að elta rangan stíg. Ármanni leist þá ekki á blikuna og ákvað að snúa við og stuttu síðar ákvað Bjarni að gera það sama. Eftir stóðum við fjórir: ég, Gísli, Ásgeir og Bergur. Frændurnir Ásgeir og Bergur bundu sig þá saman og ég og Gísli gerðum slíkt hið sama. Þarna fór allt að ganga vel, öllum leið vel og við fundum það að við vorum komnir á réttan slóða.
 
Þegar við höfðum gengið í rúma 7 tíma vorum við farnir að nálgast neyðarskálann, Solvay, sem er staðsettur í rúmlega 4000 metra hæð. Eftir þennan skála eru ekki nema 400m eftir á toppinn sem allir stefndu á. En þá fór að snjóa og það skall á svartaþoka. Um það leyti mættum við fyrsta hópnum sem var á leiðinni niður. Þetta var ferðamaður með leiðsögumann sem sagði okkur að veðrið ætti eftir að versna með deginum og að það yrði erfitt fyrir okkur að klára. Þarna stóðum við 4 og vissum ekki hvað við áttum að gera, veðrið átti eftir að versna á næstu dögum og við vorum ekki með mat til að hanga í neyðarskýlinu lengi. Áttum við að hlusta á leiðsögumanninn sem vildi ólmur sjá okkur mistakast eða áttum við að æða út í óvissuna? Við ræddum þetta í stutta stund ákváðum að játa okkur sigraða í þetta skiptið. Toppurinn var þá látinn bíða betri tíma. Það voru erfið skref niður hrygginn en eftir nokkra klukkutíma komust við þó heilir niður en ofboðslega sárir yfir því að vera svona stutt frá toppnum. 
 
Enginn okkar vildi þó fara heim án þess að hafa farið upp á a.m.k eitt fjall sem lagt var upp með að klára þannig að við ákváðum keyra aftur til Frakklands og reyna þar við Mont Blanc á ný og nú fara aðra leið, Gouter leiðina. 
 
Mont Blanc II – Gouter leiðin
Konan sem sá um tjaldsvæðið í Frakklandi var ánægð að sjá okkur aftur, við plöntuðum okkur á sama stað og hringdum síðan í Gouter skálann í leit að plássi fyrir 6 stráka. Degi seinna tókum við kláfinn upp í hlíðar Mont Blanc. Gangan frá kláfnum var töluvert lengri en í hinum ferðunum og ekki leið á löngu þar til hnéð fór að angra Berg á ný, þá ákvað hann að snúa við. Við 5 héldum áfram í átt að skálanum sem við náðum eftir 6 klukkustundir. Góð spá var fyrir nóttina og allir voru vongóðir um að ná toppnum í þetta skiptið. Stemningin í skálanum var léttari en í hinum og við slógum á létta strengi, nánar tiltekið gítarstrengi, en Vegbúinn með KK sló rækilega í gegn hjá okkur félögum.
 
Nóttin var með sama sniði og í Cosmiques og Hörnli skálunum, vöknuðum klukkan 2, fengum okkur góðan morgunverð og héldum svo út í myrkrið. Við röðuðum okkur í línu og gengum af stað, aldursforsetinn Ásgeir leiddi hópinn. Við fylgdum ítölskum hóp sem við hafði verið með í skálanum og þegar við höfðum gengið í dágóðan tíma tókum við eftir því að við vorum einir með Ítölunum og ákváðum að spyrja hvar hinir væru. Þau sögðu okkur að við værum fyrsti hópurinn og það kom okkur mikið á óvart því okkur fannst við ganga á þægilegum hraða. Gangan gekk vel en frostið var orðið miklu meira en við höfum lent í áður. Blautir sokkarnir voru farnir að frjósa ásamt þeim vökva sem við höfðum meðferðis. Þunna loftið var farið að þreyta okkur og það fór sérstaklega illa í Gísla sem var hættur að syngja lög fyrir okkur. Við náðum þó að tala hann til að ganga upp í neyðarskýlið sem er undir lokabrekkunni. Þegar þangað var komið fór þrjóskan í Gísla í gang, hann var kominn allt of langt til þess að snúa við núna. Við tókum okkur gott nestishlé og sáum á eftir Ítölunum upp brekkuna. Endurnærðir en kaldir gengum við svo af stað upp lokabrekkuna. Á hryggnum fór að hvessa og laus snjórinn barði okkur fast,  sólgleraugun fóru upp til varnar og við gengum hægt upp brekkuna. Allt í einu sáum við að brekkan var farin að fletjast út og þá vissum við að stutt væri í toppinn. Tilfinningin að ná toppnum var hreint út sagt frábær, allir gleymdu kuldanum, þreytunni og þunna loftinu og við fögnuðum innilega. Skálað var með harðfisk frá Godthaab og síðan sungum við Sæsavalsinn að vestmannaeyskum sið. Næstu fjallagarpar ráku upp stór augu þegar þeir sáu þessa athöfn okkar og hafa örugglega haldið að við værum með einhverjar lausar skrúfur. 
 
Núna var verkefnið aðeins hálfnað því við áttum eftir að koma okkur niður. Gangan gekk vel enda allir enn í sæluvímu. Við komum okkur niður að kláfnum seinnipartinn og vorum þá búnir að vera á ferðinni í um 14 klukkustundir. Þar hittum við Berg sem hafði tekið niður tjöldin og raðað í bílinn og þá brunuðum við til Ítalíu þar sem við látum þessa ferðasögu enda.
 
Bjartur Týr Ólafsson
 
 
Eftirfrandi fyrirtæki styrktu þessa ferð og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir:
 
Klettur, Volari, Skýlið, 900 Grillhús, Kráin, Tvisturinn, Eyjavík, Vöruval, Pétursey, Toppurinn, Grímur kokkur, Eyjablikk, Bragginn, Alþrif, Godthaab í Nöf, Axel Ó og Hótel Vestmannaeyjar
 
 
Fréttir / Fimmtudagur 23. ágúst 2012 - 39. árg, 34. tbl., Vestmannaeyjum 23. ágúst 2012