Ferð á Þumal í júní 2013


Við sátum fjórir í Herjólfi og ræddum málin hvert við ætluðum að fara í þetta skiptið, spáin var góð og stefnan var því sett á hinn margumtalaða Þumal. Þarna voru þeir Ármann, Ásgeir, Bergur og Bjartur Týr.
Við sátum fjórir í Herjólfi og ræddum málin hvert við ætluðum að fara í þetta skiptið, spáin var góð og stefnan var því sett á hinn margumtalaða Þumal. Þarna voru þeir Ármann, Ásgeir, Bergur og Bjartur Týr.

Þumall var fyrst klifinn árið 1975 af þeim Kjartani, Daða og Snorra meðlimum Hjálparsveitar skáta í Vestmannaeyjum. Það má því segja að Vestmannaeyjingar eigi nokkuð stóran part í þessum tind.

Ferðin hófst við Skaftarfell þar sem við pökkuðum niður í bakpokana öllu nauðsynlegu og héldum af stað inn Morsárdalinn í átt að Þumli.

Eftir um þriggja tíma göngu var klukkan orðin 2 eftir miðnætti og þá slóum við upp tjöldunum og lögðum okkur í nokkra tíma fyrir átök morgundagsins. Klukkan 6 vorum við svo komnir á fætur og tilbúnir í að ganga í átt að tindinum. Það tók okkur um fjóra tíma að finna klettinn því svartaþoka var yfir okkur allan tímann og það var í raun ekki fyrr en sáum móta fyrir risastórum skugga í allri þokunni sem við vissum að við værum komnir að Þumli.

Þarna vorum við farnir að fylgja sporum hóps sem hafði verið þarna helgina áður svo við áttum ekki í miklum erfiðleikum með að finna upphaf klifurleiðarinnar.

Teymin voru tvö, Ármann og Bjartur Týr bundu sig saman og Ásgeir og Bergur gerðu slíkt hið sama. Bergur og Bjartur löggðu þá af stað hlið við hlið upp fyrstu spönnina en hún einkenndist af lausu grjóti og Ásgeir og Ármann máttu hafa sig alla við að forðast steinana sem komu rúllandi niður klettinn. Eftir fyrstu spönnina var komið að lóðréttum vegg og okkur þótti betra að aðeins einn færi í einu þar upp. Bergur byrjaði, klifjaður allskyns bergtryggingum, og eftir um 30 metra lóðrétt klifur var hann kominn á stall þar sem hann setti upp tryggingu og þá hélt Ásgeir af stað upp til hans. Næst var komið að Bjarti sem fór með línu í tryggingarnar sem Bergur kom fyrir og Ármann fylgdi svo í kjölfarið. Þarna var erfiðasti kafli fjallsins búinn og við tók brölt í gegnum laust grjót, þar þurfti ekki síður að setja upp tryggingar því hætturnar leyndust víða.

Svo mikil var þokan að þegar Bergur var kominn upp á síðustu syllu fyrir toppinn fagnaði hann eins og toppnum væri náð en sá þá ekki að hann átti eftir að klifra einn vegg í viðbót áður en tindurinn væri sigraður.

Hnífbeittur toppurinn var síðan líklega sá flottasti sem við höfum séð. Við komum okkur allir fyrir og tókum nokkrar myndir. Þá fór að birta til, skýin hurfu og við sáum lengst norður eftir öllum Vatnajökli, þetta var mjög tilkomumikil sjón.

Leiðin niður gekk heldur brösulega því línan átti það til að festast en eftir smá bras vorum við þó komnir niður af klettinum alsælir með afrekið.

Gangan niður að bíl tók svo restina af deginum og þegar þangað komið var sólarhringur liðinn síðan við byrjuðum ferðina. Við vorum orðnir ansi þreyttir enda búnir að ganga og klifra í 20 tíma á síðasta sólarhring.

Nú væri gaman að vita hvort aðrir Vestmannaeyjingar hafi klifið þennan tind síðan þríeykið frá HSV fóru þangað 1975 eða hvort þetta sé önnur ferð Eyjamanna á Þumal.

- Bjartur Týr